Er pláss fyrir menningu ?

Þrátt fyrir að vera ung þjóð, þá höfum við Íslendingar ógrynni af íslenskri menningu. Við eigum marga gamla klassíska listamenn sem og enn fleira ungt og upprennandi listafólk. En hvað er menning? Er hægt að útskýra það á einfaldan hátt með því að skilgreina menningu sem allt sem auðgar andann eða er skýringin mun dýpri og flóknari? Greinahöfundur hefur mikið velt fyrir sér stöðu menningar í þjóðfélaginu í dag. Eftir að hlusta á umræðu undanfarið, þá hefur oft komið upp í hugann sú spurning hvort það sé einfaldlega pláss fyrir menningu í íslensku þjóðfélagi í dag?

Útvarpsstöðvarnar og blöðin kepptust á dögum við að útnefna mann, konu, hetju ársins eða hvað sem þeir kusu að kalla það. Á útvarpsstöðvunum var fólk beðið að hringja inn með tilnefningar og blöðin óskuðu sum eftir tillögum á tölvupósti. Það var nokkuð fróðlegt að fylgjast með fólki hringja inn og kjósa sinn mann eða konu ársins og velta fyrir sér ástæðunni fyrir valinu. Einstaka kusu stjórnmálamenn, þó skiljanlega mun færri en áður, sumir kusu bloggara fyrir sitt „hlutlausa“ innlegg sitt í þjóðfélagsumræðuna, en flestir sem undirrituð heyrði í gáfu skemmtikröftum atkvæði sitt. Spurðir um ástæðu kemur yfirleitt sú einfalda skýring að þeir séu svo skemmtilegir og fyndnir eða þá að þeir séu helstu listamenn þjóðarinnar. Pétur Jóhann var oftast nefndur, enda hefur hann skemmt mörgum á árinu, en er ekki of langt gengið að kalla skemmtikrafta, helstu listamenn þjóðarinnar? Grænn froskur með einn klígjulegasta og mest ofnotaða frasa ársins og bensíntittur sem ber sama nafn og Bessastaðamaðurinn sem maður ársins? Svo virðist þó vera að þetta sé eitt af því fáu sem sameinar þjóðina í dag, einfalt grín sem lyftir upp andanum. Þegar yfir fimmtugir kunningjar hittast í sundlauginni og hrópa yfir hópinn, nei essasú? þá er greinahöfundur farinn að hafa áhyggjur af sálarlífi hins venjulega Íslendings.

Nú meira en ári eftir hrun, keppast fjölmiðlar ennþá við að mála sem svörtustu mynd af ástandinu á Íslandi. Raunveruleikinn að mati greinarhöfundar er allt annar en sá sem fjölmiðlar mata ofan í okkur. Auðvitað eru fjölmargir og mun fleiri en áður sem eiga það mjög erfitt þessa dagana en það er ekki að sjá á heildarsvipnum á þjóðinni að hér sé þessi gríðarlega kreppa og neikvæðni sem fjölmiðlar matreiða ofan í landann. Gamlárskvöld hefur ekkert breyst, með tilheyrandi sprengingum, barir borgarinnar eru enn sneisafullir, fólk flykkist í bíó að sjá íslenskt grín og já flestum virðist daglega lífið vera enn við sama heygarðshornið, þó margir hafi minna á milli handanna.

Menning, hvort sem verið er að tala um leiklist, myndlist, ljóðlist eða annað hefur fylgt þjóðinni gegnum alla tíð. Í dag, virðist áhugi almennings hafa dalað og að mati greinahöfundar er það neikvæðri fréttaumfjöllun að kenna. Þegar keppst er við að sýna allt sem svartast, þá hlýtur léttleikinn að hafa yfirhöndina þegar fólk sækir sér í tilbreytingu. Er hætta á að menningin týnist, eða er hún bara undir teppinu í smá tíma?

Kannski er eina lausnin að fjölmiðlar hætti að mála myndina af Íslandi sem svartasta og fólk taki sig saman, hætti að taka þátt í neikvæðri nöldurumræðu, horfi jákvætt fram á veginn þrátt fyrir margar stórar hindranir og sæki í sig orku úr allri þeirri menningarflóru sem við höfum. Greinarhöfundur hefur ekki nokkrar áhyggjur af því að Íslendingar komi sér ekki upp úr kreppunni fyrr en síðar, hví ekki að reyna að njóta lífsins, ekki einungis með hugsanalausri afþreyingu heldur einnig lifandi og auðgandi menningu?

 Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 10.janúar 2010


mbl.is Lögin tvö sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband