13.5.2011 | 23:35
Enginn veit sína ævi ....
Pabbi dó þegar ég var einungis 17 ára. Það er skrítið að hugsa til þess hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef hans hefði notið lengur við, en það þýðir víst ekki að hugsa svoleiðis.
Pabbi var húsasmíðameistari og man ég einungis eftir einum degi þar sem hann var veikur, alla mína ævi, þar til hann dó. Pabbi var mjög vinnusamur, rak sitt eigið fyrirtæki en þrátt fyrir það þá hafði pabbi alltaf tíma fyrir litla örverpið sitt, sem var ég. Pabbi kenndi mér rommý, sem við spiluðum oft og sunnudagar voru okkar dagar, þar sem pabbi fór með mig í kolaportið, fengum okkur hamborgara og fórum á rúntinn niðrá höfn.
Það er skringilegt, og þó kannski ekki, hversu lítið ég man eftir tímanum þegar pabbi dó. Það er allt í hálfgerðri móðu. Hann var á leiðinni í einfalda aðgerð, og að hans sögn, yrði í mesta lagi nokkra daga frá vinnu. En það var af sem áður var og pabbi kom aldrei aftur. Ég er heppin, ég á stóra fjölskyldu, fjögur eldri systkini, og þau og þeirra makar, ásamt fleirum, voru sem stoð og stytta fyrir mig í gegnum þennan tíma, svo mikið man ég þó.
Það er ekki auðvelt að vera unglingur og missa foreldri. Á unglingsárunum eru foreldrarnir kannski ekki manns bestu vinir. Maður er nýbúinn að slíta barnsskónum, heldur að maður sé fullorðinn og viti allt. Enn þann dag í dag, þrátt fyrir að það þýðir ekkert að hugsa um liðna tíð, læðist að mér sú hugsun, af hverju kvaddi ég pabba ekki almennilega þegar hann fór upp á spítala? Ég sé mig fyrir mér, sitjandi í sófanum inn í stofu, kallandi bæ, eins og ekkert sé og það verði alltaf næsti dagur og hann verði kominn heim áður en ég viti af. En stundum, því miður, þá kemur ekki þessi næsti dagur.
Vinir Sjonna komumst áfram í forkeppninni í Eurovision og keppa í aðalkeppninni á morgun. Þetta var nokkuð óvænt fyrir alla, þar sem laginu hafði ekki verið spáð áfram og meira að segja jákvæðasti maður Íslands og júrónörd með meiru, Páll Óskar, var ekki bjartsýnn. En á endanum, þá kom Ísland síðast upp úr hattinum.
Hvað sem hverjum finnst um keppnina, lagið og hvernig sem því gengur annað kvöld, þá er ekki hægt að neita því að boðskapurinn er mjög mikilvægur og það er vonandi að hann nái til sem flestra.
Það er ekki alltaf hægt að treysta á morgundaginn. Látna ástvini geymum við í hjartanu og finnum nálægð þeirra þegar við þurfum en hlustum á boðskap lagsins. Pirrum okkur ekki á smáatriðum og látum ástvini okkar vita á hverjum degi hversu mikið við elskum þá og njótum hvers andartaks sem við eigum með þeim. Líðandi stund kemur ekki aftur og enginn veit sína ævi, eða annarra, fyrr en öll er.
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 18.maí 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.