21.9.2007 | 19:58
karlremba/kvenremba
Jahá, ekki get ég sagt að mér finnist karlremba, sú hefð að faðir leiði dóttur sína upp að altarinu. Aftur á móti finnst mér bera vott um mikla biturð og kvenrembu hjá þessum blessaða presti í Stokkhólmi.
Verð ég að játa, að þó ég sé nú ekki með þessar týpískar hugmyndir um brúðkaup, hef ég velt þessu nokkuð fyrir mér, af þeirri einni ástæðu að faðir minn er ekki lengur meðal vor.
Í þau skipti sem ég hef farið í brúðkaup eða hugsað til þess hvernig mín gifting muni vera, leitar hugur minn alltaf til þess að faðir minn getur ekki "leitt mig upp að altarinu". Set þó í sviga að "leiða mig upp að altarinu" þar sem ég er nú ekki pottþétt á því að ég muni staðfesta mína ást í kirkju, til þess þarf maður væntanlega að trúa á guð. Þrátt fyrir það finnst mér þetta mjög falleg hefð, sú hefð að faðirinn gefi litlu stúlkuna sína frá sér. Yfirleitt eru mæður og dætur nú mun nánari og þetta er kannski eitt af stærstu "mómentum" sem faðir og dóttir eiga saman. Sjálf var ég mikil pabbastelpa þegar ég var lítil, hugsa ég oft til pabba og get alltaf leitað til hans í huganum þegar mér líður illa, vel eða þarf auka styrk. Já, þetta var mín skoðun, svona eins og hún kemur, beint frá hjartanu, og kannski hugsaði ég öðruvísi um mitt brúðkaup ef pabbi væri enn hér....
Kalt mat, aldrei ætti að banna einum né neinum að velja sér hvaða aðila sem þeir vilja til að leiða sig að þeirra framtíðarmaka, jah nú, eða engan ef það er þeirra val
Karlremba að feður fylgi dætrum að altarinu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég var einmitt að velta þessu sama fyrir mér, hvar kemur karlremba inn í þetta? Það er sem betur fer nánast óheyrt hér á vesturlöndum að konur séu beinlínis 'gefnar' ákveðnum mönnum til brúðkaups. Þetta er bara gamall siður. Alveg eins og það að halda athöfn í kirkju er gamall siður sem hefur í sjálfu sér lítið með hjónabandið sjálft að gera. Ég á erfitt með að koma auga ár hvað það er sem sænskum prestum mislíkar svona við þetta en ég á svosem bara yfirhöfuð erfitt með að skilja margt af því sem svíarnir blessaðir gera.
Egill Óskarsson, 22.9.2007 kl. 01:34
Held það sé bara ein ástæða á bak við þetta... Ég hef ekki hitt marga svía en ég hef aldrei hitt skemmtilegan svía, aldrei nokkru sinni. Ofurdrykkfelldir Finnar eru mun skemmtilegari en þeir svíar sem ég hef hitt hehe
ViceRoy, 22.9.2007 kl. 08:45
Hey, nú verð ég að taka upp hanskann fyrir Svíunum, vinum mínum. Það eru alveg til fullt af skemmtilegum Svíum, hef aftur á móti aldrei hitt skemmtilegan Finna... sérstaklega verða þeir leiðinlegir í glasi!
Faðir minn leiddi mig upp að altarinu þegar ég gifti mig. Ég var nú ekki viss þegar hugmyndin um athafnarstað kom upp að hann fengist til að fara í kirkjuna þar sem hann er ótrúrækinn með afbrigðum (hann fór í bíltúr með litla bróður minn á meðan frænka mín var skírð) en ekki kom annað til greina en að hann tæki að sér þetta hlutverk. Sem betur fer minntist ég ekki á það við hann hvort hann vildi sleppa því, hann talaði örugglega ekki við mig í dag, 4 árum seinna, þetta var svo sjálfsagt. Það hefði líka verið einstaklega hallærislegt að hafa mömmu mér við hlið, í stað pabba, bara til að ýta ekki undir einhverja karlrembu. Það að faðir "gifti burt" dóttur sína hefur nú verið lengur til staðar á Íslandi en bandarískar kvikmyndir, ef ég er ekki alveg úti á þekju...
Ásdís María (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.