Burt með hrokann!

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn að gera svo þessir 80 dagar verði ekki að fjórum árum? Er flokkurinn tilbúinn til að líta í eigin barm, sýna smá auðmýkt og umfram allt tilbúinn í endurnýjun?

Í fyrsta skipti í tæp 18 ár er Sjálfstæðisflokkurinn ekki í ríkisstjórn og það er greinilega mjög mismunandi hvernig okkar ástkæru þingmenn eru að höndla sín nýju sæti. Málefnaleg stjórnarandstaða er það sem þingmenn flokksins eiga að standa fyrir, standa vörð um stefnu og hugsjónir en ekki missa sig í skítkasti á allt það sem biðstjórnin lætur út úr sér. Sumum farnast þetta hlutverk mjög vel með sanngjarnri gagnrýni og réttmætum spurningum á meðan einstaka virðast hafa hlustað aðeins of mikið á SJS í gegnum tíðina, sem hefur þó misst allt púður við að komast í ríkisstjórn, vera á móti bara til að vera á móti í stað þess að gagnrýna málefnalega og fagna góðum málum.

Við vorum ein ríkasta þjóð í heimi, áttum allt og gátum gert allt sem við vildum. Nú er staðan aftur á móti allt önnur, efnahagur landsins hrundi og Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að taka þátt í litlu gulu hænu leiknum og benda eitthvað annað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert margt gott undanfarin ár en einnig þarf flokkurinn að líta í eigin barm og sætta sig við og viðurkenna að ýmislegt hefði mátt gera öðruvísi og betur, sem og allir hinir. Sjálfstæðisflokkurinn færði okkur t.a.m. aukið frelsi og frelsi fylgja mörg tækifæri, en frelsi fylgir einnig ábyrgð. Sú ábyrgð var ekki skýr og þess vegna hefur ábyrgðin að margra mati fallið á flokkinn. Hrunið verður þó ekki gert upp að fullu fyrir kosningar í vor, of margt er enn á huldu og á eftir að koma fram í dagsljósið. Því er fráleitt að pólitískar aðfarir að mispólitískum einstaklingum sé lausnin en að sama skapi hvað varð um það að líta í eigin barm, hugsa um hagsmuni heildarinnar og stíga til hliðar?

Að mörgu er að hyggja og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að líta á þessa 80 daga sem tækifæri, tækifæri til að sýna fólki að hann sé tilbúinn í breytingar, tilbúinn til að sýna auðmýkt, stokka upp og leiða þjóðina í gegnum kreppuna og upp úr henni. Ef flokkurinn er ekki tilbúinn í naflaskoðun, þá mun þjóðin sjá til þess að sjálfstæðismenn verði í stjórnarandstöðu í 4 ár hið minnsta.

Ég fagna því að prófkjör verði haldin í öllum kjördæmum og því unga efnilega hugsjónafólki sem býður sig fram. Alþingi á ekki að líta á sem endastöð heldur stað til að koma sínum hugsjónum á framfæri þjóðinni í hag og trúi ég því að þjóðinni sé best borgið með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnartaumana.

En þá er komið að spurningunni sem margir velta fyrir sér. Er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn í uppgjör og endurnýjun? Eru tímar uppreisnar-æruþingmanna og dýraráðherra liðnir? Ég vona það! Ég vil ekki sitja uppi með flugfreyju í TF-TAX lengur en umhverfis alþingi á 80 dögum.

 Deiglan.com, 11.febrúar 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Sjálfstæðisflokkurinn líti í eigin barm, sýni auðmýkt ?

Hvað var í kvöldmatinn hjá þer ?

hilmar jónsson, 11.2.2009 kl. 21:18

2 identicon

Verulega fín grein. Gaman að sjá Deigluna rífa kjaft, hefur verið heldur þögul upp á síðkastið.

Bk.

Þorleifur

Þorleifur (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband