Bera fæst orð minnsta ábyrgð?

 Eins greinilega og Vinstri Grænir og Samfylkingin eru engan veginn að standa sig í því að stjórna landinu þá er Sjálfstæðisflokkurinn engu betri í hlutverki sínu í stjórnarandstöðu. Öll þau háleitu markmið eftir kosningar að veita vinstristjórninni gott aðhald virðast hafa fokið út um veður og vind við fyrsta mótbyr.

Að vísu kom Sjálfstæðisflokkurinn með góðar efnahagstillögur nú fyrir stuttu og frumvarp sem snýr að aðkomu þjóðarinnar í ákvarðanatöku um hvort sækja eigi um ESB. Efnahagstillögurnar voru þó fljótar að grafast í sandinn undir Icesave og ESB umræðu. Þykir pistlahöfundi í því samhengi merkilegt hversu auðveldlega Samfylkingin nær að heilaþvo íslensku þjóðina og fá hana til að halda að minna lýðræði felist í að við ráðum hvort Ísland sæki um í ESB. Á meðan finnst Alþýðu-Jóhönnu sjálfsagt að öll þjóðin fái að segja skoðun sína á því hvað skuli gera við Valhallarblettinn á Þingvöllum.

Þingmenn og forysta Sjálfstæðisflokksins bera ábyrgð á því að málstaður flokksins heyrist. Þó má ekki hvítþvo fjölmiðla sem flestir hverjir copy-paste-a yfirlýsingar vinstristjórnarinnar án nokkurrar gagnrýni og láta ennþá eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn.

En hvar er Sjálfstæðisflokkurinn? Þingmenn Framsóknarflokksins eru duglegir að sýna ræðusnilli sína í pontu, enda að æfa sig fyrir ræðukeppni og Borgarahreyfingin sem situr beggja megin borðsins eru gáttuð á vinnubrögðum þingsins. Lítið hefur aftur á móti sést af formanni og forystusveit Sjálfstæðisflokksins nema í þeim tilvikum þar sem fréttamenn biðja þá um álit.

Nú er tíminn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur að uppruna sínum, aftur í þá hugmyndafræði sem flokkurinn á að standa fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mikinn fjölda fólks á bak við sig, sumir sem aldrei gefast upp á flokknum, sama hvað, en þó enn fleiri sem munu ekki samþykkja þennan roluhátt mikið lengur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á því að missa fleiri sem samræma sig við grunnstefnu flokksins en eru algjörlega búnir að missa trú á því að flokkurinn nái sér á strik.

Síðustu árin í ríkisstjórn fór Sjálfstæðisflokkurinn langt út af sporinu. Gríðarleg aukning í ríkisútgjöldum og fyrirgreiðslupólitíkusar sem voru löngu búnir að gleyma hverju þeir stóðu fyrir og fyrir hverja þeir voru að vinna réðu ríkjum. Nú, í stjórnarandstöðu, er rétti tíminn til að efla innra starf flokksins. Formaður flokksins þarf að sýna dug og þor svo baklandið öðlist aftur trú á styrk flokksins. Af hverju virðist því sem Sjálfstæðisflokkurinn sé að lokast og færast fjær fólkinu sem stendur á bakvið hann?

Undirrituð hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn. Sú von að í stjórnarandstöðunni myndi flokkurinn ná styrk sínum aftur með því að tefla fram sinni sýn á lausn kreppunnar er hægt og bítandi að fjara út. Sjálfstæðisflokkurinn kemst ekki upp með það að grafa hausinn í sandinn og bíða fram að næstu kosningum. Forysta flokksins þarf að sýna þjóðinni að Sjálfstæðisflokkurinn sé vopnum búinn og nógu sterkur til að koma okkur upp úr kreppunni. Tíminn er að renna út og því lengur sem þögnin ríkir, því meira ærir hún.

 

Greinin birtist áður vefritinu Deiglan.com 13.júlí 2009


mbl.is Áfram deilt um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband