13.5.2011 | 23:35
Enginn veit sína ævi ....
Pabbi dó þegar ég var einungis 17 ára. Það er skrítið að hugsa til þess hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef hans hefði notið lengur við, en það þýðir víst ekki að hugsa svoleiðis.
Pabbi var húsasmíðameistari og man ég einungis eftir einum degi þar sem hann var veikur, alla mína ævi, þar til hann dó. Pabbi var mjög vinnusamur, rak sitt eigið fyrirtæki en þrátt fyrir það þá hafði pabbi alltaf tíma fyrir litla örverpið sitt, sem var ég. Pabbi kenndi mér rommý, sem við spiluðum oft og sunnudagar voru okkar dagar, þar sem pabbi fór með mig í kolaportið, fengum okkur hamborgara og fórum á rúntinn niðrá höfn.
Það er skringilegt, og þó kannski ekki, hversu lítið ég man eftir tímanum þegar pabbi dó. Það er allt í hálfgerðri móðu. Hann var á leiðinni í einfalda aðgerð, og að hans sögn, yrði í mesta lagi nokkra daga frá vinnu. En það var af sem áður var og pabbi kom aldrei aftur. Ég er heppin, ég á stóra fjölskyldu, fjögur eldri systkini, og þau og þeirra makar, ásamt fleirum, voru sem stoð og stytta fyrir mig í gegnum þennan tíma, svo mikið man ég þó.
Það er ekki auðvelt að vera unglingur og missa foreldri. Á unglingsárunum eru foreldrarnir kannski ekki manns bestu vinir. Maður er nýbúinn að slíta barnsskónum, heldur að maður sé fullorðinn og viti allt. Enn þann dag í dag, þrátt fyrir að það þýðir ekkert að hugsa um liðna tíð, læðist að mér sú hugsun, af hverju kvaddi ég pabba ekki almennilega þegar hann fór upp á spítala? Ég sé mig fyrir mér, sitjandi í sófanum inn í stofu, kallandi bæ, eins og ekkert sé og það verði alltaf næsti dagur og hann verði kominn heim áður en ég viti af. En stundum, því miður, þá kemur ekki þessi næsti dagur.
Vinir Sjonna komumst áfram í forkeppninni í Eurovision og keppa í aðalkeppninni á morgun. Þetta var nokkuð óvænt fyrir alla, þar sem laginu hafði ekki verið spáð áfram og meira að segja jákvæðasti maður Íslands og júrónörd með meiru, Páll Óskar, var ekki bjartsýnn. En á endanum, þá kom Ísland síðast upp úr hattinum.
Hvað sem hverjum finnst um keppnina, lagið og hvernig sem því gengur annað kvöld, þá er ekki hægt að neita því að boðskapurinn er mjög mikilvægur og það er vonandi að hann nái til sem flestra.
Það er ekki alltaf hægt að treysta á morgundaginn. Látna ástvini geymum við í hjartanu og finnum nálægð þeirra þegar við þurfum en hlustum á boðskap lagsins. Pirrum okkur ekki á smáatriðum og látum ástvini okkar vita á hverjum degi hversu mikið við elskum þá og njótum hvers andartaks sem við eigum með þeim. Líðandi stund kemur ekki aftur og enginn veit sína ævi, eða annarra, fyrr en öll er.
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 18.maí 2010
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2010 | 22:23
Allskonar fyrir aumingja
Að halda sveitastjórnarkosningar hefur sjaldan verið eins óvenjulegt í okkar sögu og er fjölda nýrra framboða gott dæmi um óánægju hins almenna kjósanda. Nærtækt dæmi má finna í síðustu alþingiskosningum þar sem nýr flokkur, Borgarahreyfingin, bauð sig fram. Þrátt fyrir að vera háalvarlegur í upphafi með mörg háleit markmið, þá endaði hans saga sem eitt stórt grín á kostnað þeirra sem lögðu traust sitt á flokkinn. Sár hrunsins eru ennþá galopin og fyrirgefning og traust eru enn mjög fjarlæg tilfinning í hugum margra.
Nú er komin upp sú staða að samkvæmt nýjustu könnun MMR mælist Besti Flokkurinn, stærsti stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík, með um 36% fylgi og 6 menn inni í borgarstjórn. Allir aðrir flokkar missa fylgi samkvæmt könnuninni. Miklar umræður hafa skapast um Besta Flokkinn og hefur nýjasta útspilið, Við erum Best myndbandið vakið mikla athygli, enda ekki annað hægt að segja en að myndbandið sé stórskemmtilegt. Mestu umræðurnar virðast snúast um það hvort þetta sé allt saman eitt stór gjörningur eða hvort alvara liggi að baki framboðinu. Sjálfstæðisflokkurinn leggst í krísustjórnun og Vinstri Grænir í hræðsluáróður. Í raun skiptir ekki nokkru máli hvort Besti Flokkurinn sé grín eður ei, hann er hressandi.
Helgi Hóseasson heitinn var á sínum tíma stimplaður geðveikur af stjórnvöldum. Þessi stimpill fylgdi honum alla tíð og varð til þess að allt sem hann gerði, allt sem hann sagði, var litað af þessum stimpli og því var Helgi aldrei tekinn alvarlega.
Er meginþorri Íslendinga ekki bara búinn að gefast upp á stjórnmálum og stimpla þau sem allsherjar geðveiki? Samkvæmt áðurnefndri skoðanakönnun má spyrja sig hvort nútímastjórnmálmenn hafi tekið stall Helga Hóseassonar? Því meira sem stimplaður einstaklingur, í þessu tilfelli stjórnmálaflokkar, reynir að sannfæra aðra um að hann sé heilbrigður, því geðveikari verður ásjóna hans. Eitt stærsta og elsta byggingarfyrirtæki landsins fer á hausinn og ríkisstjórnin nýbúin að samþykkja lög um vinnuskírteini. Að vissu leyti er mun þægilegra að líta á þetta allt saman sem einn stóran farsa, tragedískan með kómedísku yfirvafi. Þegar tiltrúin á stjórn landsins verður engin, er þá ekki besta leiðin fyrir sálina að snúa hlutunum upp í grín?
Að mati pistlahöfundar hefur Hanna Birna staðið sig mjög vel sem borgarstjóri, hún hefur náð að sameina flokkana og aðhyllist eins konar þjóðstjórn í borginni, enda það eina vitið á tímum sem þessum, hvort sem er í borg, bæjum eða á þingi. Allar raddir þurfa að heyrast og því rökrétt að allir kjörnir fulltrúar séu að vinna fyrir laununum sínum.
Ef Hanna Birna heldur borgarstjórnarstólnum að loknum komandi kosningum, verður borginni áfram vel stjórnað, en fjölbreytni í flóruna virðist vera það sem kjósendur vilja samkvæmt nýjustu könnunum og Reykjavík sem skemmtilegasta borg í heimi er mjög söluvænn punktur á dæmalausum tímum sem þessum.
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 18.maí 2010
Ingvi Hrafn á bandi Jóns Gnarr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2010 | 12:32
Er Ísland einstakt ?
Það er margt sem gerir Ísland einstakt og mikið af því er erfitt að uppgötva fyrr en flutt er til annars lands. Augljósu hlutirnir eins og myrku veturnir, björtu sumrin, hreina vatnið beint úr krananum, náttúrufegurðin og svo lengi mætti telja verða enn einstakari þegar þeir eru ekki innan handar í daglegu lífi. Í viðbót eru svo ótrúlegustu litlir hlutir sem eru svo sjálfsagðir að þeir uppgötvast ekki fyrr en úr fjarlægð.
Aftur á móti eru líka ýmsar bábiljur sem eru fastar í íslensku þjóðinni en enginn haldbær rök eru fyrir. Veðrið er svo slæmt að það er algjör fásinna að ganga, hjóla eða taka almenningssamgöngur. Jú, það er augljóst að almenningssamgangnakerfið virkar ekki sem skildi á höfuðborgarsvæðinu og þarfnast algjörrar endurskoðunar og skipulag borgarinnar hefur nánast frá upphafi snúist kringum bílinn en ekki fólk. En það sem greinahöfundur heldur að sé einnig mjög stór þáttur er hugarfarið. Fólksfjöldinn, eða réttara sagt, hversu fá við erum, verður auðvitað alltaf eitt það sem gerir okkur sérstök og þar af leiðandi ekki mögulegt að koma á jafn öflugum samgöngum og aðrar stærri evrópskar borgir geta státað af. Þó er margt sem við getum lagað, með því að byrja hægt og bítandi að breyta hugarfarinu í rétta hátt. Það eru til mun veðurbarðari borgir sem ekki eru undirlagðar einkabílnum.
En hvað er það sem gerir íslensku þjóðina sérstaka? Hinn skapandi hópur eða The Creative Class eins Richard Florida, bandarískur prófessor og rithöfundur* talar um er eitt af því sem drífur borgir áfram. Kjarni hins skapandi hóps, verandi vísindamenn og verkfræðingar, prófessorar, ljóðskáld og rithöfundar, listamenn, skemmtikraftar, leikarar, hönnuðir, arkitektar og svo fram eftir götunum. Greinahöfundur er staddur við mastersnám í Þýskalandi, þar sem næstum 82 milljón manns búa og langflestum finnst þeim vera maurar og dreymir um að komast ofar. Eitt lifandi nærtækt dæmi er þegar einn kennarinn, í stað þess að halda fyrirlestur, setti á vídeó, úr sjónvarpinu, þar sem kennarinn sjálfur var í viðtali. Á Íslandi hefði þetta þótt vægast sagt púkalegt en í Þýskalandi þykir eðlilegt að hampa sjálfum þegar stigið er upp úr mauraþúfunni. Það sem mörgum Þjóðverjum þykir einmitt merkilegast við íslensku þjóðina er hin skapandi hugsun sem virðist búa í landanum og fór greinahöfundur að velta þessu fyrir sér um daginn eftir að tveir prófessorar höfðu orð á því í óspurðum fréttum, hversu skapandi þeim þætti Íslendingar vera. Aðeins þarf að gera einn léttan samanburð, það þekkja nánast allir í heiminum okkar frægustu söngkonu Björk, enda með sanni heimsfræg. Þegar leitað er að svipuðum kandídata innan raða Þjóðverja verður leitin löng, ströng og án árangurs.
Það sem gerir íslensku þjóðina einstaka er einmitt ógrynni af skapandi hugsun. Florida talar um að skapandi fólk þyrpist saman í borgir, og eru New York og San Francisco nefndar sem dæmi um skapandi miðpunkta í Bandaríkjunum. Að mati höfundar er Reykjavík mjög skapandi miðpunktur og með sköpunina að leiðarljósi talar Florida um að efnahagurinn fylgi. Með því að hlúa að þessum skapandi hópi og draga að fleiri úr öllum áttum, ætti að vera gott tækifæri fyrir Ísland að komast hraðar upp úr efnahagslægðinni. Íslendingar vita jú best, að lægðir koma og fara.
*http://www.creativeclass.com/
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 16.febrúar 2010
Íslenskur bjór til Nýja-Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2010 | 13:05
Er pláss fyrir menningu ?
Þrátt fyrir að vera ung þjóð, þá höfum við Íslendingar ógrynni af íslenskri menningu. Við eigum marga gamla klassíska listamenn sem og enn fleira ungt og upprennandi listafólk. En hvað er menning? Er hægt að útskýra það á einfaldan hátt með því að skilgreina menningu sem allt sem auðgar andann eða er skýringin mun dýpri og flóknari? Greinahöfundur hefur mikið velt fyrir sér stöðu menningar í þjóðfélaginu í dag. Eftir að hlusta á umræðu undanfarið, þá hefur oft komið upp í hugann sú spurning hvort það sé einfaldlega pláss fyrir menningu í íslensku þjóðfélagi í dag?
Útvarpsstöðvarnar og blöðin kepptust á dögum við að útnefna mann, konu, hetju ársins eða hvað sem þeir kusu að kalla það. Á útvarpsstöðvunum var fólk beðið að hringja inn með tilnefningar og blöðin óskuðu sum eftir tillögum á tölvupósti. Það var nokkuð fróðlegt að fylgjast með fólki hringja inn og kjósa sinn mann eða konu ársins og velta fyrir sér ástæðunni fyrir valinu. Einstaka kusu stjórnmálamenn, þó skiljanlega mun færri en áður, sumir kusu bloggara fyrir sitt hlutlausa innlegg sitt í þjóðfélagsumræðuna, en flestir sem undirrituð heyrði í gáfu skemmtikröftum atkvæði sitt. Spurðir um ástæðu kemur yfirleitt sú einfalda skýring að þeir séu svo skemmtilegir og fyndnir eða þá að þeir séu helstu listamenn þjóðarinnar. Pétur Jóhann var oftast nefndur, enda hefur hann skemmt mörgum á árinu, en er ekki of langt gengið að kalla skemmtikrafta, helstu listamenn þjóðarinnar? Grænn froskur með einn klígjulegasta og mest ofnotaða frasa ársins og bensíntittur sem ber sama nafn og Bessastaðamaðurinn sem maður ársins? Svo virðist þó vera að þetta sé eitt af því fáu sem sameinar þjóðina í dag, einfalt grín sem lyftir upp andanum. Þegar yfir fimmtugir kunningjar hittast í sundlauginni og hrópa yfir hópinn, nei essasú? þá er greinahöfundur farinn að hafa áhyggjur af sálarlífi hins venjulega Íslendings.
Nú meira en ári eftir hrun, keppast fjölmiðlar ennþá við að mála sem svörtustu mynd af ástandinu á Íslandi. Raunveruleikinn að mati greinarhöfundar er allt annar en sá sem fjölmiðlar mata ofan í okkur. Auðvitað eru fjölmargir og mun fleiri en áður sem eiga það mjög erfitt þessa dagana en það er ekki að sjá á heildarsvipnum á þjóðinni að hér sé þessi gríðarlega kreppa og neikvæðni sem fjölmiðlar matreiða ofan í landann. Gamlárskvöld hefur ekkert breyst, með tilheyrandi sprengingum, barir borgarinnar eru enn sneisafullir, fólk flykkist í bíó að sjá íslenskt grín og já flestum virðist daglega lífið vera enn við sama heygarðshornið, þó margir hafi minna á milli handanna.
Menning, hvort sem verið er að tala um leiklist, myndlist, ljóðlist eða annað hefur fylgt þjóðinni gegnum alla tíð. Í dag, virðist áhugi almennings hafa dalað og að mati greinahöfundar er það neikvæðri fréttaumfjöllun að kenna. Þegar keppst er við að sýna allt sem svartast, þá hlýtur léttleikinn að hafa yfirhöndina þegar fólk sækir sér í tilbreytingu. Er hætta á að menningin týnist, eða er hún bara undir teppinu í smá tíma?
Kannski er eina lausnin að fjölmiðlar hætti að mála myndina af Íslandi sem svartasta og fólk taki sig saman, hætti að taka þátt í neikvæðri nöldurumræðu, horfi jákvætt fram á veginn þrátt fyrir margar stórar hindranir og sæki í sig orku úr allri þeirri menningarflóru sem við höfum. Greinarhöfundur hefur ekki nokkrar áhyggjur af því að Íslendingar komi sér ekki upp úr kreppunni fyrr en síðar, hví ekki að reyna að njóta lífsins, ekki einungis með hugsanalausri afþreyingu heldur einnig lifandi og auðgandi menningu?
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 10.janúar 2010
Lögin tvö sem komust áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2009 | 10:31
LÍN
Margir Íslendingar eiga það sameiginlegt að hafa leitað á náðir Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) í gegnum tíðina til þess að framfleyta sér meðan þeir hafa gengið menntaveginn. Hluti þeirra hafa vafalaust á einhverjum tímapunkti þurft að hafa samskipti við LÍN og því miður heyrast yfirleitt frekar slæmar sögur en góðar af slíkum samskiptum. Greinahöfundur er einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem hafa þurft að nýta sér þjónustu LÍN í gegnum árin, fyrst þegar undirrituð stundaði nám á Íslandi fyrir nokkrum árum og nú við nám erlendis. Fyrri reynsla af samskiptum við LÍN var öll til fyrirmyndar, enda engin vandamál sem komu upp. Nú hef ég því miður allt annað en góða sögu að segja frá liðsemi LÍN. Fyrir næstum fjórum árum útskrifaðist ég sem byggingartæknifræðingur og hef síðan þá unnið í byggingarbransanum. Eins og flestir vita var meira en nóg að gera í þeim geira, þar til fyrir rétt um ári síðan. Þessar nýju aðstæður hvöttu til að skoða möguleikann að hefja nám að nýju, nú er ég í mastersnámi í Þýskalandi.
Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar flutt er til annars lands, en aldrei hefði mér dottið í hug að á endanum væri LÍN sá þáttur sem setti strik í reikninginn. Uppi er sú staða, að af þeim rétt rúmum 800 sem ég hef í framfærslu á mánuði munu, næstu fimm mánuði, um 20% fara í það að greiða niður eldri námslán.
Hvernig stendur á þessu? Jú, eftir tveggja ára námshlé, byrja lántakendur að greiða niður sín námslán. Tvisvar á ári skal greiða til sjóðsins, í mars er það föst greiðsla og í september tekjutengd greiðsla sem miðast við tekjur fyrra árs. Umrædda tekjutengda afborgun er sú greiðsla sem lánasjóðurinn krefur mig um að greiða, eins og alla aðra fyrrum námsmenn. Þetta skal ég greiða þrátt fyrir að ég sé í fyrsta lagi, námsmaður, í öðru lagi hafa verið sagt upp störfum og í þriðja lagi verið með tekjufall upp á mun meira en 30% milli áranna 2008 og 2009. Þessar þrjár aðstæður eru einmitt nefndar sem réttmætar ástæður til niðurfellingar á afborgun samkvæmt reglum LÍN en þó fell ég ekki í neinn fyrirskrifaðan hóp. Hví? Námsmenn geta fengið frestun á afborgun, en aðeins ef þeir hafa stundað nám á vorönn árið 2009. Atvinnulausir frá niðurfellingu á afborgun, en aðeins ef þeir hafa verið atvinnulausir í fjóra mánuði og að lokum fá þeir sem verða fyrir meira en 30% tekjuskerðingu milli ára einnig niðurfellingu, en þá gilda reiknireglur LÍN, tekjur ársins 2009 eru uppreiknaðar út árið og miðaðar við tekjur ársins 2008.
Ég fell ekki inn í neinn af þessum flokkum þrátt fyrir að uppfylla öll grunnskilyrðin, án smáa letursins. Eftir margar heimsóknir til LÍN og eftir að hafa fengið neitun við umsóknum mínum samkvæmt öllum þremur leiðunum, var mér bent á síðasta valkostinn, senda formlegt bréf, með rökstuddu máli á stjórn LÍN. Þetta gerði ég og nú, rúmum 5 vikum síðar, fékk ég loks svar. Stjórn LÍN sendi bréf þess efnis að beiðni minni væri hafnað þar sem skilyrði samkvæmt reglum sjóðsins væri ekki uppfyllt.
Ástæðan fyrir þessari grein minni er ekki að óska eftir samúð vegna míns máls heldur til að vekja athygli á óliðsemi LÍN. Ég á allra síðasta valkostinn eftir, sem ég hyggst auðvitað nýta mér, að kæra úrskurð stjórnarinnar til málskotsnefndar. Að það muni bera árangur, tel ég ólíklegt en þó má alls ekki gefast upp.
Mikið hefur verið fjallað undanfarið um LÍN og þá lágu framfærslu sem námsmenn þurfa að lifa við. Nýverið var framfærslan hækkuð vegna þrýsting frá námsmönnum, skref í rétta átt, en ennþá eiga námsmenn að geta lifað ódýrar heldur en atvinnulausir. Einnig er námsmönnum gert erfiðara fyrir að vinna með námi, til að hafa það ögn betra, þar sem tekjuskerðing var aukin gríðarlega í nýju lögunum.
Að hefja nám á ný eftir nokkurra ára hlé er nógu stórt verkefni, án þess að þurfa að nota 20% ráðstöfunartekna í að endurgreiða eldri námslán. Ég efast ekki um að margir aðrir séu í sömu sporum og ég, miðað við allan þann fjölda fólks sem hefur misst vinnuna undanfarið og þann fjölda sem hafið hefur nám á ný. Ég vil því hvetja alla þá fjölmörgu námsmenn, heima sem erlendis, að láta ekki deigan síga og halda áfram að þrýsta á LÍN þar til kjör námsmanna og þjónusta LÍN verður ásættanleg.
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 30.október 2009
Samið um úrræði vegna skuldavanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2009 | 17:33
Eru konur, konum verstar ?
Síðastliðna helgi hélt Landssamband sjálfstæðiskvenna (LS) landsþing í Stykkishólmi og sendi í kjölfarið frá sér ályktun. Í ályktuninni er tæpt á helstu hlutum sem viðkoma þjóðfélaginu í dag, flest allt almennt orðað og hnykkt á þeim hlutum sem snúa að sjálfstæðisstefnunni og þarfnast lagfæringar. Ein málsgrein í ályktuninni telur pistlahöfundur félaginu ekki til framdráttar, engan veginn í anda þeirrar stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og umfram allt vanvirðing við allar konur í flokknum. Málsgreinin sem um ræðir er svo hljóðandi:
Landssamband sjálfstæðiskvenna telur að framtíð landsins verði best tryggð með jafnri þátttöku kvenna og karla í stjórnmálum og atvinnulífi. Landssamband sjálfstæðiskvenna mun á næsta starfsári beita sér fyrir því að flokkurinn samþykki jafnréttisstefnu sem skal fylgt í öllum störfum flokksins. Það er lágmarkskrafa að efstu sæti framboðslista flokksins verði jafnt skipuð konum og körlum.
Auðvitað er gott fyrir framtíð Íslands að það sé sem fjölbreyttastur hópur fólks sem leggur lóð á vogarskálarnar til þess að byggja upp landið, hvort sem er í atvinnulífi eða stjórnmálum. Að sjálfsögðu þurfum við á öllu því góða fólki að halda sem við höfum til þess að komast upp úr kreppunni. Að setja lágmarkskröfu um að helmingur framboðslista sé skipaður konum er aftur á móti alveg jafn fráleitt og að setja þá kröfu að helmingur lista sé skipaður örvhentu fólki.
Nú hef ég tekið þátt í fjölbreyttu félagsstarfi, starfað í ýmsum stjórnum og unnið á mörgum vinnustöðum. Aldrei hef ég orðið þess vör að karlmönnum sé betur treyst til forystu eða stjórnunnar heldur en kvenfólki. Aldrei hef ég heldur fundið þörf fyrir hjálpardekk eða forskot við þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur af því að ég er kona og ekki myndi mér heldur hugnast að vera á framboðslista fyrir þær sakir.
Við höfum öll gott af því að vera meðvituð um jafnrétti, ekki bara jafnrétti milli karla og kvenna heldur jafnrétti í þjóðfélaginu almennt. Misjafn er sauður í mörgu fé og handahófskennd flokkun sem snýr að kynferði er engan veginn réttlátur mælikvarði á hæfileika hvers einstaklings í frjálsu samfélagi.
Við sem tilheyrum yngri kynslóð þessa lands, þurfum að tileinka okkur þá hugsun að vinna saman með trú á okkur sjálf sem einstaklinga í samfélaginu. Hver einstaklingur hefur sína styrkleika og veikleika. Með nægu sjálfstrausti munu þeir hæfustu skara fram úr og skipta þar kynfæri engu máli. Þessum árangri verður ekki náð ef kynin skipta sér í sitt hvort hornið og velja sér þá sjálfsmynd að líta á sig sem annað hvort forréttindahóp eða fórnarlömb.
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 11.september 2009
Semenya sögð vera tvíkynja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2009 | 13:13
Flótti til frelsis
Það er því umtalsverð hætta á fólksflótta með tilheyrandi vítahring niðursveiflu. Á einföldu máli: Þessi Icesave-samningur tekur á engan hátt tillit til hinnar fordæmislausu stöðu á Íslandi. Svo kemst Pétur H. Blöndal að orði í grein sinni í Morgunblaðinu í gær.
Að mati greinarhöfundar er fólksflóttinn þegar byrjaður og þeir sem upplifa að fólk í kringum sig sé að flytja af landi brott fyllast öfund, hvers vegna? Ber þetta vott um minni þjóðerniskennd ungs fólks eða hefur fólk enga trú á framtíðinni á Íslandi?
Íslenskt samfélag byggir í raun og veru á þrem höfuðstoðum. Þessar stoðir halda undir þá sterku þjóðerniskennd og samhug sem einkennir Íslendinga. Við höfum í fyrsta lagi þetta stórkostlega land, sem hefur upp á allt að bjóða. Í öðru lagi þá höfum við okkar sögu, ekki langa en sterka, sem bindur okkur saman, sjálfstæðisbaráttan, handritin, íslensk menning, ljóð, myndlist og svo lengi mætti telja. Síðast en ekki síst þá er það framtíðin. Framtíðin og framtíðarsýnin sem tengir okkur saman sem íslenska þjóð. Framtíðarsýnin fær okkur til að sýna samstöðu og vinna saman að sameiginlegum markmiðum þjóðarinnar, laust við alla kredduflokkspólitík. Er það ekki einmitt framtíðarsýn ungs fólks sem er í móðu? Eins útjaskað og það hljómar, þá er staðreyndin sú að það vantar ljósið í enda ganganna. Það vantar traustið á ríkið leysi málin á þann hátt að íslenskir borgarar verði ekki gerðir að þrælum stórvelda sem annað hvort hafa engan skilning á stöðunni sem við erum í, eða njóta þess að blóðmjólka okkur fyrir það sem við gerðum.
Auðvitað fylgir visst frelsi í flóttanum. Frelsi að komast frá þeim yfirvofandi þrældóm sem virðist bíða þeirra sem verða eftir. Frelsi að losna úr miðri hringiðju fellibylsins áður en hann verður verri meðan framtíðin hér á landi virðist ekkert nema svört. En hvernig er hægt að öfundast út í þá sem leggja leið sína út í hið óþekkta? Margir ungir íslendingar flykkjast nú erlendis í nám eða til að leita sér að atvinnu. Sumir hafa einungis enga trú á framtíð landsins og svo eru aðrir tilneyddir að flýja til þess eins að sjá fyrir sér. Öfundin felur í sér þá trú að grasið sé grænna hinu megin, fyrir suma þá er það rétt, aðrir örugglega ekki jafn lánsamir. Enginn vill aftur á móti sitja eftir einn í súpunni með skuldir þjóðarbúsins á herðum sér.
Þjóðin virðist vera að skilja sig frá ríkinu, en hversu lengi stendur þjóðerniskenndin án þriðju stoðarinnar? Íslendingar, hvar sem þeir eru, og verða eftir nokkur ár, þurfa á skýrri framtíðarsýn að halda. Réttlætið þarf að virka og íslenskir stjórnmálamenn þurfa að vinna sér traust þjóðarinnar aftur. Að mati ráðamanna er fólksflóttinn eðlilegur og óumflýjanlegur, en stjórnendur þessa lands mega ekki missa sjónar á þeirri staðreynd að framtíð Íslands skiptir höfuðmáli í því hvort ein af auðlindum þjóðarinnar, ungt menntað fólk, snúi aftur til þess að byggja upp landið í sameiningu.
Greinin birtist áður á vefritinu Deiglan.com 14.ágúst 2009
Kommar, íhald og guðsmenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2009 | 10:28
Bera fæst orð minnsta ábyrgð?
Eins greinilega og Vinstri Grænir og Samfylkingin eru engan veginn að standa sig í því að stjórna landinu þá er Sjálfstæðisflokkurinn engu betri í hlutverki sínu í stjórnarandstöðu. Öll þau háleitu markmið eftir kosningar að veita vinstristjórninni gott aðhald virðast hafa fokið út um veður og vind við fyrsta mótbyr.
Að vísu kom Sjálfstæðisflokkurinn með góðar efnahagstillögur nú fyrir stuttu og frumvarp sem snýr að aðkomu þjóðarinnar í ákvarðanatöku um hvort sækja eigi um ESB. Efnahagstillögurnar voru þó fljótar að grafast í sandinn undir Icesave og ESB umræðu. Þykir pistlahöfundi í því samhengi merkilegt hversu auðveldlega Samfylkingin nær að heilaþvo íslensku þjóðina og fá hana til að halda að minna lýðræði felist í að við ráðum hvort Ísland sæki um í ESB. Á meðan finnst Alþýðu-Jóhönnu sjálfsagt að öll þjóðin fái að segja skoðun sína á því hvað skuli gera við Valhallarblettinn á Þingvöllum.
Þingmenn og forysta Sjálfstæðisflokksins bera ábyrgð á því að málstaður flokksins heyrist. Þó má ekki hvítþvo fjölmiðla sem flestir hverjir copy-paste-a yfirlýsingar vinstristjórnarinnar án nokkurrar gagnrýni og láta ennþá eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn.
En hvar er Sjálfstæðisflokkurinn? Þingmenn Framsóknarflokksins eru duglegir að sýna ræðusnilli sína í pontu, enda að æfa sig fyrir ræðukeppni og Borgarahreyfingin sem situr beggja megin borðsins eru gáttuð á vinnubrögðum þingsins. Lítið hefur aftur á móti sést af formanni og forystusveit Sjálfstæðisflokksins nema í þeim tilvikum þar sem fréttamenn biðja þá um álit.
Nú er tíminn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur að uppruna sínum, aftur í þá hugmyndafræði sem flokkurinn á að standa fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mikinn fjölda fólks á bak við sig, sumir sem aldrei gefast upp á flokknum, sama hvað, en þó enn fleiri sem munu ekki samþykkja þennan roluhátt mikið lengur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á því að missa fleiri sem samræma sig við grunnstefnu flokksins en eru algjörlega búnir að missa trú á því að flokkurinn nái sér á strik.
Síðustu árin í ríkisstjórn fór Sjálfstæðisflokkurinn langt út af sporinu. Gríðarleg aukning í ríkisútgjöldum og fyrirgreiðslupólitíkusar sem voru löngu búnir að gleyma hverju þeir stóðu fyrir og fyrir hverja þeir voru að vinna réðu ríkjum. Nú, í stjórnarandstöðu, er rétti tíminn til að efla innra starf flokksins. Formaður flokksins þarf að sýna dug og þor svo baklandið öðlist aftur trú á styrk flokksins. Af hverju virðist því sem Sjálfstæðisflokkurinn sé að lokast og færast fjær fólkinu sem stendur á bakvið hann?
Undirrituð hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn. Sú von að í stjórnarandstöðunni myndi flokkurinn ná styrk sínum aftur með því að tefla fram sinni sýn á lausn kreppunnar er hægt og bítandi að fjara út. Sjálfstæðisflokkurinn kemst ekki upp með það að grafa hausinn í sandinn og bíða fram að næstu kosningum. Forysta flokksins þarf að sýna þjóðinni að Sjálfstæðisflokkurinn sé vopnum búinn og nógu sterkur til að koma okkur upp úr kreppunni. Tíminn er að renna út og því lengur sem þögnin ríkir, því meira ærir hún.
Greinin birtist áður vefritinu Deiglan.com 13.júlí 2009
Áfram deilt um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2009 | 17:56
Endalokin
Á morgun opnar Feneyjar-tvíæringurinn fyrir almenning. Sýningin stendur yfir í um hálft ár og mætti skilgreina sem nokkurskonar mekka nútímalistar. Tvíæringurinn eða oft kallaður Bínalinn (e. biennale) var fyrst haldinn árið 1895 og er alltaf haldinn annað hvert ár í Feneyjum og er þetta í 53ja sinn sem hátíðin er haldin. Titill sýningarinnar er Making Worlds og um 90 listamenn frá öllum heimshlutum taka þátt í sýningunni. Í ár eru 77 lönd sem taka þátt í Bínalinum og er sýningin dreifð um Feneyjar, þar sem hvert land hefur sinn sýningarstað, skála. Það er mikill heiður fyrir íslenska listamenn að vera valdir til að vera fulltrúar Íslands á þessari gígatísku listahátíð og vöktu verk Steingríms Eyfjörð árið 2007 mikla athygli, sérstaklega íslenska tilvitnunin í verkum hans og mesta athygli hér heima vakti huldu-kindin.
Í ár sendi listaakademían á Íslandi, yngsta listamanninn sem hefur verið sendur á Bínalinn fyrir hönd Íslands. Ragnar Kjartansson er 33 ára gamall og útskrifaðist úr myndlistardeild LHí árið 2001, hann hefur fengist við margt í gegnum tíðina tengt myndlist og tónlist en mest hefur hann fengist við gjörninga og innsetningar í myndlistinni.
Fyrir tæpum mánuði síðan kynnti Ragnar verkið fyrir blaðamönnum á Listasafni Íslands. Verkið kallar Ragnar The End eða Endalokin. Listaverkið er tvíþætt, annars vegar myndbands- og tónlistarinnsetning á fimm tjöldum, samspil hljóðfæraleiks og söngs sem Ragnar gerði í undir beru lofti í nístandi frosti í kanadísku klettafjöllunum, nánast á enda veraldar, í ævintýralegu umhverfi með Davíð Þór Jónssyni (tónlistarmaður sem t.d. hefur spilað með Flís, Mugison o.fl.).
Hinsvegar og sá þáttur verksins sem vakið hefur meiri athygli er gjörningur listamannsins. Ragnar hefur innréttað listmálarastúdíó í fjórtándu aldar byggingu sem vísar beint út á Grand Canale sýkið og hýsir íslenska skálann. Þarna mun Ragnar starfa í hálft ár og mála hverja myndina af fætur annarri, eina á dag, af Páli Hauki Björnssyni, kollega sínum og fyrirsætu í þessum gjörning. Páll mun klæðast sundskýlu einni fata, reykja og sötra bjór. Málverkin, stubbar og tómar bjórflöskur munu safnast upp og verður fróðlegt að sjá hvernig umhorfs verður í stúdíóinu þann 22.nóvember 2009 á síðasta degi sýningarinnar.
Eins og áður sagði hefur þessi gjörningur Ragnars vakið mikla athygli og háværa gagnrýni landans. Ragnar Kjartansson hefur ekki þá ímynd að vera alvarleg týpa, hvað þá þegar flestir sem ekki eru í hringiðju listageirans á Íslandi sjá hann aðallega fyrir sér uppi á sviði, beran að ofan, glimmerarðan, hristandi loðnu karlmannsbrjóstin sín og öskrandi Nasty Boy af einstöku sjálfsöryggi.
En hver er skilgreiningin á heiðarlegum og einlægum listamanni? Þarf þunglyndið að drjúpa af þeim til þess að þeir séu teknir alvarlega? Fer sundskýlan, sígaretturnar og bjórinn svona fyrir brjóstið á hinum almenna Íslendingi að inntak gjörningsins nær ekki að skila sér? Í viðtali sem New York Times birti í vikunni við Ragnar, segir að hann hafi fyrst þurft að átta sig á, hvað það þýddi að vera listræn táknmynd lands sem nánast væri á kúpunni. Innsetningar á sýningu sem þessari geta stundum verið svo stórar að það þarf heilt flutningaskipt il að koma þeim á staðinn. Hugmynd Ragnars var að gera verk sem væri algjörlega laust við allt óþarfa bruðl. Bara hann sjálfur, ódýr efni og viðfangsefni. The End snýst um mann án örlaga, án framtíðar, sem Ragnari finnst við vera að upplifa hér heima og endalok heimsins frá sjónarhorni listamannsins.
Já, list er svo miklu meira en landslag málað á striga, hangandi upp á vegg í fallegri stofu, eigendum til yndisauka. List er ádeila, portrett af heiminum eins og listamaðurinn sér hann. Ragnar Kjartansson er í miklum mætum hjá mér sem listamaður, hann er einlægur, fullur sjálfsöryggis og reynir ekki að vera neitt annað en hann er. Ég hlakka því mikið til að fylgjast með honum á Feneyjar-tvíæringnum sem og í framtíðinni.
Heimasíða Feneyjar-Tvíæringsins:
http://www.labiennale.org/en/art/index.html
Heimasíða Ragnars Kjartanssonar:
Greinin birtist áður vefritinu Deiglan.com 6.júní 2009
„Hann er að slá í gegn hérna“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2009 | 16:15
Auðvitað er hún til í að borga meira útsvar....
Ég er ekki til i að borga meira svo fólk geti haft börn sín í leikskóla meira en 8 stundir á dag án þess að greiða fyrir það sjálft.
Mér finnst þetta mjög sanngjörn leið hjá Reykjarvíkurborg. Grunnþjónustan er óskert og meira að segja eru gjöld fyrir grunnþjónustan þau lægstu á landinu. Sum sveitarfélög hafa farið þá leið að minnka þjónustuna en Reykjavíkurborg ákveður að bjóða enn upp á hana.
Blöskrar hækkunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)